Listamaður: Mýrmann

3.01 2014 14:30

Listamaður: Mýrmann

Það sem stendur upp úr dvölinni er fyrst og fremst að hafa kynnst Odd og öllu því góða fólki sem ég var í návígi við þarna úti, bæði fjölskylduna hans og aðra listmálara. Odd er mikill viskubrunnur, og sem góður leiðtogi sagði hann alltaf sannleikann og var ekkert að hlífa manni en sparaði heldur ekki hrósið þegar maður átti það skilið."

 

Nafn: Víðir Ingólfur Þrastarson „Mýrmann“

Hvaðan kemur nafnið Mýrmann?

Langa langa afi minn hét Þorsteinn Mýrmann. Ég var búinn að velta því fyrir mér hvort og hvaða listamannsnafn ég gæti tekið upp. Mér hefur alltaf fundist mitt fulla nafn vera frekar óþjált sem listamannsnafn. Mýrmann varð fyrir valinu og það hefur einfaldlega fests við mig.

Hvaðan sækirðu innblástur í verkin þín?

Ég sæki innblástur minn aðallega í huglæg efni, náttúruna og samskipti mín við fólkið sem verður á lífsleið minni. Með list minni langar mig að reyna að ná fram hughrifum og fá fólk til að staldra aðeins við. Spyrja spurninga eins og t.d, hvað er það sem skiptir máli í lífinu?

Hvað drífur þig áfram?

Það sem drífur mig áfram er þörfin að vilja sífellt verða betri listmálari, að kryfja og fanga viðfangsefnið betur, að hafa eitthvað að segja og skilja eitthvað eftir mig í þessu lífi. Eitt það mikilvægasta til að þroskast og dafna er sjálfsgagnrýni og að umbera sjálfan sig. Það sem ég hef líka lært er að leti er versti óvinur listamannsins.

Af hverju að mála?

Þegar ég var um tíu ára fékk ég hugljómun sem hefur ekki skilið við mig síðan og vísast tek ég hana með mér í gröfina.

Þú fórst í nám til norska listamannsins Odd Nerdrum, hvernig kom það til og hvað stóð uppúr þeirri reynslu?

Ég sendi honum nú bara persónulegt bréf upp á gamla móðinn og ljósmyndir af verkum eftir mig og óskaði eftir að fá að gerast lærlingur hjá honum. Tveimur mánuðum seinna fékk ég svar og Odd og fjölskylda buðu mér að koma til Noregs og búa hjá þeim og mála undir handleiðslu meistarans. Það sem stendur upp úr dvölinni er fyrst og fremst að hafa kynnst Odd og öllu því góða fólki sem ég var í návígi við þarna úti, bæði fjölskylduna hans og aðra listmálara. Odd er mikill viskubrunnur, og sem góður leiðtogi sagði hann alltaf sannleikann og var ekkert að hlífa manni en sparaði heldur ekki hrósið þegar maður átti það skilið.  Það styrkti mig líka mikið allar þær heimspekilegu umræður sem sköpuðust iðulega, bæði á vinnustofunni og við arininn á kvöldin.  Þær voru eftir á að hyggja einn mikilvægasti þátturinn í náminu og viss opinberun fyrir mig.

Það er nýútkomin bók um nemendur Odds og þú einn af þeim nemendum sem varst valinn í bókina, hvernig tilfinning var það og ertu búinn að fá þér eintak af bókinni?

Að hafa verið valinn í bókina er aðallega heiður og ákveðin viðurkenning. Hvort það sé einhver stökkpallur fyrir mig veit ég ekkert um og ég tek þessu bara með jafnaðargeði. Það hefur lítil áhrif á mig fyrir utan heiðurinn, hvort verk eftir mig birtist í bókum eða tímaritum. Ég veit alveg hvar ég stend sem málari og veit líka alveg hvert mig langar að fara og veit að ég þarf að leggja mikið á mig til að ná því. Ég er ekki mikið fyrir yfirborðsmennsku og vill að listamaður sé dæmdur af verkunum og verðleikum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð bókina ennþá, en fæ hana í byrjun janúar.

Við höfum fundið fyrir vaxandi áhuga á þér og verkunum þínum síðustu misseri, hvað er í gangi?

Líklegast er ástæðan sú að ég er vonandi að vaxa sem málari og fylgi mínu hjarta í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég læt umheiminn ekki hafa of mikil áhrif á mig og mína stefnu í lífinu og hugsanlega skín það í gegn.

Hvar sérðu þig fyrir þér með pensilinn 90 ára?

Ef ég næ háum aldri og held í heilsuna, þá sé ég mig fyrir mér, að vakna á morgnana, fá mér kaffi, faðma konuna og láta hana klóra sítt, hvítt skegg mitt. Svo geng ég á vinnustofuna mína, tylli mér í gamlan slitinn hægindastól, læt hugann reika með það að meginmarmiði að ná enn meira valdi á penslinum og hugsun minni. Gamlar sálir gætu rekið nefið inn og við skipst á þokukenndum sögum um gamla góða tímann og forn afrek okkar. Vonandi kíkja börnin mín og barnabörn til mín til að smella kossi á kinn gamals listmálara sem er enn í leit að hinu fullkomna meistaraverki.

Lokaorð?

Eitt sinn heyrði ég gott máltæki sem er á þá leið: "Sá sem talar mest, segir minnst " Því læt ég þetta verða lokaorð mín.

 

                                                                                                                                      Musesblogger

 

Ummæli